Frá formanni

Ágætu Sniglar.

Fyrst af öllu langar mig til þess að þakka það traust sem Aðalfundur sýndi mér og og samstjórnarfólki mínu með því að veita okkur brautargengi í stjórn samtakanna.

Framundan er afmælisárið sem við erum staðráðin í að gera eins ánægjulegt og mögulegt er – hverskyns uppákomur sem eiga að kynna samtökin og vekja athygli á hagsmunum hjólafólks almennt.

 

Afmælisdagurinn er 1. apríl og þá verður fyrsta uppákoman – sú næsta 4. apríl – Skagakeyrslan þann 23. og svo stærsta hópkeyrslan 1. maí.

Ég hef undanfarna daga hitt nokkra af formönnum hinna ýmsu klúbba. Tilgangurinn að sjálfsögðu sá að koma á persónulegu sambandi og leita eftir samvinnu við þá.

Það er skemmst frá því að segja að allir þeir formenn sem ég hef talað við hafa tekið mér feiki vel. Við höfum verið sammála um að auka samstarf – auka þátttöku í uppákomum – hafa samstarf á sem flestum sviðum.  Það er bjargföst skoðun mín að slík samvinna verður okkur öllum til hagsbóta.

Ég mun halda þessum fundum áfram og kappkosta að hitta /tala við alla formenn fyrir 25 ára afmælisdaginn 1. apríl.

Viðburðir hinna ýmsu klúbba verða auglýstir á heimasíðu okkar – en ný síða er í smiðum undir stjórn ritara samtakanna Bergs Kristinssonar og á að verða tilbúin fyrir afmælisdaginn. Ég hvet alla Snigla til þess að taka þátt í þeim viðburðum sem auglýstir verða af hinum ýmsu klúbbum t.d. – Swapmeet H-DC ICE 7. mars – Ískross Mývatn þann 14.3. – Vík – Enduro 16. maí – Ernir með skoðunardag 23.5.- Bifhjólasýning Rafta 9.5..- Sólheimaferð Postula í maí – sem og Geysiskeyrsla þeirra í júní – Grindjánar með Sjóarann síkáta 6. júní – Vík – 6 tímar, Reykjavík og Mótorkross, Álfsnesi þann 25.6.

Vonandi koma dagsetningar á fleiri þætti næstu daga.

Formannafundur hefur verið nefndur og ræddur í flestum ef ekki öllum samtölunum. Fundur þar sem unnt væri að leggja línurnar fyrir okkur öll – samræma sjónarmið og koma á framfæri þörfum hvers og eins. Ekki síst eru þessir fundir með formönnunum ætlaðir til þess að hreinsa andrúmsloftið þar sem þess er þörf enda engum til gagns að úlfúð ríki innan hjólaheimsins í landinu. Ef einn biker rekur hníf í bak annars er hann um leið að reka hníf í sitt eigið bak. Síðasta ár var að mörgu leiti ár hinna stóru orða. Ekki voru þau öll vel rökstudd en ollu úlfúð og reiði og okkur öllum skaða. Það er von mín að við hefjum okkur öll upp yfir slíkt – tökum höndum saman og vinnum að uppgangi samtakanna – vexti þeirra og eflingu – Bifhjólasamtökin og hagsmunir hjólafólks VERÐA að vera í fyrsta sæti en við sem einstaklingar í öðru sæti.  Látum það sem er liðið vera liðið horfum á daginn í dag og til framtíðar.

Varðandi afmælisárið þá er verið að vinna að sögu samtakanna sem verður annarsvegar í bókarformi og hinsvegar í formi safns sem á að innihalda sem flest og helst allt það sem Sniglar hafa látið frá sér fara – allar Sniglafréttir – Bifblíur -öll Landsmótsmerki –plaggöt – fána – skraut og skartgripi – fatnað og sem sagt allt sem unnt er að koma höndum yfir.

Þeir sem eiga í fórum sínum hluti sem segja sögu samtakanna mættu gjarnan hafa samband við mig.
Á heimasíðunni verða uppákomur auglýstar en mig langar þó til að nefna það að á hverjum miðvikudegi er félagsfundur í Skeljanesinu og hefst hann um kl 20. Þar verða alltaf einhverjir stjórnarmenn – jafnvel allir – og ég hvet félaga til þess að mæta og hitta okkur og aðra Snigla. Gestir víðsvegar að koma gjarnan í kaffi og spjall og gefur það þessum kvöldum enn skemmtilegri svip.

Að lokum ítreka ég þakkir stjórnarmanna fyrir að fá tækifæri til þess að starfa fyrir samtökin. Ég kalla líka eftir aðkomu sem flestra félagsmanna til nefndarstarfa – og þátttöku í atburðum afmælisársins.
Sameinumst í því að gera þetta að jákvæðu eftirminnilegu afmælisári.

Kveðjur til ykkar allra,
Ólafur I. Hrólfsson
Formaður – Hrósi #1999
Sími: 562-6797
GSM: 840-2267
GSM: 861-9407
Netf: 1999@sniglar.is

Athugasemdir

athugasemdir