Mótorhjólamessa 2015 – Kraftaklerkurinn

Hin árlega mótorhjólamessa verður haldin mánudaginn næstkomandi, annan í hvítasunnu. Tónleikar verða haldnir fyrir messuna eða klukkan 19 og messan hefst síðan klukkan 20.

Í tilefni Mótorhjólamessunnar býður Grillhúsið upp á hamborgarann „Kraftaklerkurinn“. Söluverðmæti hans rennur til Grensásdeildar Landspítalans.  Mörg okkar sem ökum mótorhjólum höfum því miður þurft að nýta okkur þjónustu Grensásdeildar eða þekkjum til fólks sem þar hefur komist til heilsu aftur eftir slys.  Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, jafna framlag ykkar/Grillhússins, svo með því að kaupa „Kraftaklerkinn“ leggur þú í raun tvöfalt söluverðmæti hans til málefnisins. Hvetjum við ykkur því eindregið til þess að skella ykkur í borgara á Grillhúsið.

Vöfflusala verður í Digraneskirkju og rennur allt andvirði hennar til Hjálparstarfs kirkjunnar.

Axel Ómarsson og Cospelskór Ástjarnarkirkju sjá um tónlistarflutning á meðan á messunni stendur.
Séra Gunnar leiðir messuna að venju. Sérstakur gestur er séra Íris Kristjánsdóttir, prestur í Kanada.

Mótorhjólamessan er messa, svo það sé ekkert misskilið, með öllum messuliðum en tónlistin og framsetning messunnar er mjög óhefðbundin svo hún er ekki fyrir litúrgískt viðkvæma. Þau sem eru að leita að slíku, ættu frekar að fara annað.
Bílar eru ekkert sérstaklega velkomnir en þeir sem koma á bílum eru beðnir að leggja sem lengst í burtu frá kirkjunni og alls ekki á efra planið sem fyrirsjáanlega mun fyllast af mótorhjólum.

Athugasemdir

athugasemdir