Fréttir af FEMA fundi í Brussel

Fulltrúar hina ýmsu FEMA landa sem mættir voru á fundinn í Brussel.

FEMA fundur var haldinn í Brussel 4. febrúar síðastliðinn og sat Njáll Gunnlaugsson, formaður umferðarnefndar hann fyrir hönd Snigla. Febrúarfundurinn er aðalfundur og var meðal annars kosin ný stjórn en hana sitja nú Anna Zee frá Bretlandi formaður, Jim Freeman einnig frá Bretlandi sem er gjaldkeri, Maria Nordqvist frá Svíþjóð, Theo Beldens frá Belgíu og Eric Maldiney frá Frakklandi sem meðstjórnendur.

Virkt öryggi í mótorhjólum

Eftir kaffihlé kom athyglisverður fyrirlestur um virkt öryggi í mótorhjólum frá Hennes Fisher frá Yamaha, en hann fjallaði aðallega um hvað það þýðir að tengja saman upplýsingar um ökutæki í akstri svo þau geti varað hvort annað við yfirvofandi hættu. Hann áætlar að flestir stærstu framleiðendur bíla og mótorhjóla verði komnir með allavega eitt ökutæki hver árið 2020 sem býður uppá þennan möguleika. Það er mjög mikilvægt að mótorhjólafólk fylgist vel með þróuninni á þessum þætti svo að það verði ekki útundan eða kerfin veiti misvísandi upplýsingar.

Fundur á Kýpur og félagsmál

Þvínæst var kynning á næsta fundarstað, sem er 10. júní á Kýpur. Á fundinum voru þrír meðlimir nýjasta aðildarfélags FEMA en það heitir CMRC. Wim Taal, fjölmiðlafulltrúi FEMA fjallaði svo um hvernig betri heimasíða og uppfærsla samskiptamiðla hefur skilað miklu betri lestri frétta frá FEMA. Til dæmis hefur fjöldi þeirra sem líkar við FEMA á Facebook sexfaldast og eru nú vel yfir 12.000 talsins. Flestar heimsóknir koma frá Póllandi, sem er athyglisvert þar sem að engin samtök frá Póllandi eru aðilar. Dolf flutti skýrslu ritara og síðust fyrir hádegishlé var Jesper frá SMC sem flutti mjög áhugaverðan fyrirlestur um hvernig SMC hefur náð í fleiri félaga (þeim hefur fjölgað um 13.000 á 3-4 árum) og haldið þeim, en meðal lífaldur félaga í SMC eru 9 ár.

FEMA og FIM samstarf

Eftir mat flutti Doede Bakker frá FIVA samtökunum fyrirlestur, en þau sjá um fornökutæki, sem eru yfir 30 ára. Margt athyglisvert kom þar fram sem hugsanlega er hægt að nýta sér betur, og lagt var til að FEMA/FIM/FIVA hefðu með sér frekara samstarf. Morten Hansen flutti skýrslu um hvernig samstarf FEMA/FIM hefur þróast og er það að skila miklum árangri. Samtökin deila skrifstofu í Brussel sem FIM borgar fyrir að mestu leyti og áætlanir eu uppi um frekara samstarf, meðal annars í áróðursherferðum sem að öll lönd munu geta nýtt sér. Loks flutti Wim Taal greinargerð um framkvæmd Mobility Test 2017 þar sem hann hvatti fleiri lönd til að taka þátt, en aðeins 8 lönd tóku þátt í fyrra. Framkvæmdin er einföld, en þarna eru bornir saman ferðatímar mismunandi samgöngutækja, eins og reiðhjól, skellinaðra, mótorhjól, bíll, farþegi í strætó o.sv.frv.

Árekstrarvarnir í bílum og á vegi

Eftir kaffihlé flutti Dolf fyrirlestur um hvernig árekstrarvarnir eru prófaðar í bílum með (eða án) tillits til mótorhjóla. Sem dæmi eru ekki framkvæmdar prófanir með mótorhjólum þegar aftanákeyrsluvarnir í bílum eru prófaðar, og er það því aðeins happa/glappa ef búnaðurinn skynjar mótorhjól. Gera þarf prófanir með mótorhjólum fyrir slíkan búnað og að láta gera “mótorhjólagínu” eins og notað er fyrir bíla. Eftir hádegi sat líka háttsettur FIM stjórnarmaður fundinn sem áheyrnarfulltrúi, en það er John-Chatterton Ross sem sumir kannast kannski við. FEMA hefur einnig verið boðið að taka þátt í hönnun vegriða með Evrópusamtökum vegagerða sem er mikill árangur. Undir liðnum önnur mál var fjallað um hvernig þýðing á mótorhjólabæklingnum Full Kontrol á arabísku nýtist meðal annars flóttamönnum sem leita hælis í löndum Evrópu. Einnig var lögð fram tillaga um að stjórnvöld myndu styðja við bakið á þjálfun mótorhjólafólks sem þegar hefur hlotið réttindi sín.

Athugasemdir

athugasemdir