Nýr skattur á mótorhjól í Finnlandi 1. maí

Finnskt mótorhjólafólk er ósátt við aukna skatta.

Stjórn Juha Sipilä í Finnlandi hefur sett á nýjan skatt þar í landi sem leggst aðeins á eigendur mótorhjóla og sportbáta. Skatturinn leggst á öll mótorhjól yfir 125 rsm og er 18.000 ÍKR á ári óháð notkun. Búist er við að þessi skattur skili inn þremur milljörðum í finnska þjóðarbúið árlega. Skatturinn leggst á frá 1. maí næstkomandi, sama dag og bifhjólafólk á Íslandi kemur saman til að fagna vorinu. SMOTO í Finnlandi eru hagsmunasamtök þar í landi líkt og Sniglar hérlendis og þar á bæ mótmæla menn þessum skatti kröftuglega. SMOTO segir skattinn ganga í berhögg við að allir notendur finnska vegakerfisins séu jafnir. Aukinn skattur muni leiða til minni notkunar sem aftur leiðir til minni heildartekna af mótorhjólafólki. Einnig getur skatturinn verið mjög óhagstæður innflytjendum og fyrirtækjum sem nota mótorhjól í sína þjónustu. Skattar á bíla í Finnlandi fara eftir fjölda notkunardaga, eyðslu og þyngd og einmitt þess vegna er flatur skattur eins og þessi mjög óréttlátur.

 

Athugasemdir

athugasemdir