Samantekt á hagsmunastarfi Snigla síðustu þrjá áratugi

Frá hópkeyrslu Snigla 1. maí

Frá stofnun Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla hafa samtökin verið í fararbroddi hagsmunagæslu mótorhjólafólks á Íslandi. Eftir talsverða rannsóknarvinnu má hér sjá lista yfir þau málefni sem Sniglar hafa látið til sín taka gegnum árin. Hér er aðeins fjallað um einstök baráttumál en þess fyrir utan hafa Sniglar verið virkir í alls konar félagsmálum, hvort sem það eru hópkeyrslur eins og á 1. maí, landsmót bifhjólafólks eða aðrir viðburðir, oftar en ekki með það fyrir augum að safna peningum til að leggja góðu málefni lið. Það eru einna helst Hollvinasamtök Grensásdeildar sem hafa notið góðvildar Snigla. Tekið skal fram að þessi listi er alls ekki tæmandi og gaman væri að fá ábendingar frá gömlum Sniglum ef það er eitthvað sem vantar hérna inn:

1989
Þegar banna átti notkun á svokölluðum “Aftermarket” púskerfum eða flækjum náðu Sniglar í samstarfi við Bifreiðaeftirlitið að koma á reglugerð er leyfði þau.
Á sama tíma var mótorhjólum gert að nota númeraplötur af sömu stærð og stórir jeppar sem virkuðu eins og fallhlífar. Fyrir tilstilli Snigla voru þær minnkaðar í þá stærð sem notuð er í dag.

1991
Barátta Snigla gegn miklum hækkunum tryggingafélaga einkenndi þetta ár og talsverður árangur náðist, enda voru Sniglar duglegir að koma fram í fjölmiðlum.

1992
Fyrsta stóra umferðarátak Snigla skilar fimm myndbandsinnskotum sem fóru í sýningu í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Marktækur árangur náðist í fækkun slysa á því ári eða sem nam um 15% fækkun.

1994
Haldin var glæsileg sýning í Laugardalshöll. Sýningin trekkti að fjölda manns og skilaði það sér með góðum árangri út í umferðina.

1995
Sniglar ganga í Evrópufélag mótorhjólasamtaka EMA.

1996
Sniglar sitja í nefnd um gerð námskrár fyrir bifhjól sem skilar viðamikilli og betri námsskrá árið eftir. Sniglar koma einnig að gerð nýrra verkregla prófa sama ár.

1997
Annað stóra umferðarátak Snigla skilar tveimur myndbandsinnskotum til sýninga í sjónvarpi og kvikmyndahúsum.

1998
Auglýsingar frá árinu áður voru sýnd í kvikmyndahúsum.

1999-2000
Stóra bifhjólarannsóknin hefst og eru þar tekin fyrir öll slys síðasta áratugar á undan og þau greind.

2003
Umferðarátak Snigla um Vorboðann ljúfa, Sval og Sól er hrint af stað, fer á strætó og í kvikmyndahús.

2004
Sniglar héldu stóra sýningu í Kópavogi. Gefin var út bókin Sniglaför og haldið var skyndihjálparnámskeið sérsmíðað fyrir bifhjólafólk. Auglýsingar í útvarp eru gerðar „Ekki deyja úr töffaraskap” en þessar auglýsingar hljóma ár hvert í hljóðmiðlum. Einnig fór átakið “Vorboðinn ljúfi” aftan á strætisvagna.
Á þessu afmælisári fengu sniglar setu í Umferðarráði og hafa sinnt stöfum þar inni allar götur síðan.

2006
Umferðarátak Snigla er aftur hrint af stað og auglýsingarnar „Við komum líka út á vorin”  en þessar auglýsingar lifa ennþá góðu lífi.

2007
Auglýsingar eru settar í kvikmyndahús og hljóðmiðla.
Sniglar mótmæltu harkalega víravegriðum í blaðagreinum og sjónvarpi.

2008
Skjáauglýsingar á 365 miðlum í þrjár vikur.
Sniglar taka þátt í umferðaröryggisviku í tilefni af H-deginum.
Átakið “Sérðu mig núna” fer af stað með merkingum á gulum vestum.
Sniglar gefa út umferðaröryggisbækling.
Sniglar funda tvisvar á árinu með fulltrúum Samgönguráðuneytis vegna hlífðarfatafrumvarpsins.

2009
Umferðarátak í samstarfi með Umferðarstofu með þátttöku Snigla skilar mörgum innskotum í bæði útvarp og sjónvarp.
Umferðarnefnd Snigla hrinda af stað „Ertu nagli” sem fara aftan á strætisvagna, í kvikmyndahús og sjónvarp. Sniglar taka einnig þátt í gerð nýrra umferðarlaga sem fara fyrir þing 2010 auk þess að ná að stoppa af hlífðarfatafrumvarpið. Sniglar funduðu með Vegagerð og í kjölfarið var ákveðið að bæta og auka samstarf Vegagerðar og Snigla.
Sniglar funda með fulltrúum Samgönguráðuneytis um ný Umferðarlög og breytingar á hlífðarfatafrumvarpi.
Sniglar blása til átaks gegn fjölgun skellinöðruslysa og halda sérstakann forvarnardag þeim tileinkuðum.

2010

Nýir “koddar” sýruþvegnir svo þeir verði ekki eins hálir vegna kvörtunar frá Umferðarnefnd Snigla.
Sniglar flytja í fyrsta sinn erindi á rannsóknarþingi vegagerðarinnar.
Sniglar sitja mótorhjólaráðstefnu í Prag.
Sérmerking bifhjólastæða sett fram í nýrri reglugerð fyrir atbeina Snigla.
Stór könnun (581 svarendur) á kostnaði við tryggingar bifhjóla og átakið “Tryggjum sanngirni” í kjölfarið.
Umferðarátakið “Sérðu mótorhjól – Líttu aftur” sett af stað með límmiðum í bíla.
Sniglar mótmæla Umferðarlögum á Alþingi.
Sniglar funda með Reykjavíkurborg og Vegargerð vegna sjálfvirkrar ljósastýringa gatnamóta.
Sniglar fá eina milljón í styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar vegna verkefnisins “Bifhjól, vegir og umferðaröryggi.”

2011

Breytingar á bifhjólaprófum einfaldaðar mjög miðað við önnur lönd í Evrópu, Sniglar áttu fulltrúa í nefndinni sem endurskoðaði prófin.
Umferðarátakið “Endum rúntinn heima” fer af stað með sex skiltum við þjóðvegi landsins.
Bifhjólavegrið sett upp til prófunar í fyrsta skipti á Íslandi, samstarfsverkefni Snigla og Vegagerðarinnar.
Torfæruhjól sleppa við að þurfa að hafa ABS alltaf á í drögum að gerðarviðurkenningu Evrópu fyrir mótorhjól. Tillagan á að hluta rætur sínar að rekja til Íslands og þátttöku Snigla í FEMA.
Sniglar funda með Samgöngunefnd vegna Umferðarlaga í apríl.
Málþing bifhjólafólks haldi í mars.
Sniglar benda á ákvæði tryggingarfélaga um lækkun bóta ef ekki er notaður hlífðarfatnaður standist ekki lög og að tryggingarfélög eigi að greiða bætur fyrir skemmdir á hlífðarfatnaði.
Sniglar funda með Innanríkisráðherra í febrúar.
Sniglar koma ábendingum um betri viðskiptahætti til tryggingarfélaga með aðstoð FME.
Sniglar setja af stað átak um sambærilega lækkun á vörugjöldum og bílar fá vegna minni mengunar. Tekið fyrir á Alþingi.

2012

Þrefaldur sigur Snigla í breytingum á Umferðarlögum. Hlífðarfataskylda tekin út, lækkun á aldri fyrir A2 réttindi og dönsk reglugerð fyrir börn sem farþega tekin inn.
Handbók fyrir bætt vegumhverfi kemur út, en hún er samstarfsverkefni Snigla og Vegagerðarinnar.
Tillögur Snigla í hópi Innanríkisráðuneytisins Decade of Action, um niðurfellingu tolla á öryggisbúnað bifhjólafólks ná í gegn.
Umferðaröryggisherferðinni “Ertu kúl eða kjáni?” hleypt af stokkunum.
Sniglar fá 800.000 kr styrk til verkenfisins Núllsýn bifhjólafólks.

2013

Sniglar fá í gegn breytingu á reglugerð um mynstursdýpt vetrarhjólbarða til hagsbóta fyrir mótorhjólafólk.
Skýrslan Núllsýn bifhjólafólks kemur út sem var samstarfsverkefni við Vegagerðina.
Lögreglan tekur Vegbúnaðarhandbók Snigla upp sem kennsluefni í Lögregluskólanum.

2014

Tillögur Snigla um börn sem farþega á bifhjólum ná inn í drög um ný Umferðarlög.
Sniglar fá fyrir hönd bifhjólafólks úthlutað stæðum í Smáralind og Kringlunni.

2016

Verkefnisstýring á 1. maí viðburðinum. Lokaverkefni 1. árs nema í Verkefnastjórnun í HR. Plagg sem lýsir í þaula hvað þarf til að halda þennan viðburð, og samstarf Snigla við Reykjavíkurborg og Lögregluna.

Athugasemdir

athugasemdir