Sniglar funduðu með samgönguráðherra í dag

Frá vinstri: Njáll Gunnlaugsson, Jón Gunnarsson samgönguráðherra og Gunnar Sigurjónsson.

Þrátt fyrir annasama dagskrá Jóns Gunnarssonar, samgönguráðherra fengu fulltrúar Snigla fund með honum í dag. Þar voru rædd helstu mál sem brenna á hjólafólki um þessar mundir. Í umræðunni sem hvatt hefur verið til vegna hugsanlegra veggjalda vildu Sniglar koma því á framfæri að víðast hvar í viðmiðunarlöndum okkar eru engir vegtollar á mótorhjólum og í flestum öðrum löndum einungis á sérstökum stöðum, eins og við brýrnar yfir Stóra og Litla-Belti. Einnig áréttuðu fulltrúar Snigla nauðsyn þess að kláruð yrði vinna við ný umferðarlög og þau lögð fram á þessu ári. Sniglar hafa á þeim 10 árum sem þau hafa verið í vinnslu lagt mikla vinnu í að fá inn breytingar til hagsmuna fyrir hjólafólk og finnst mál til komið að lögin nái í gegn svo að málefni eins og óréttlát hlífðarfatalög eða aldursákvæði falli niður. Einnig var hvatt til að haldinn yrði fundur með Fagráði umferðarmála (áður Umferðarráð) sem fyrst, en Sniglar eiga fulltrúa þar. Það voru Njáll Gunnlaugsson, nýkjörinn formaður Snigla og Gunnar Sigurjónsson, kraftaklerkur sem sátu fundinn fyrir hönd Snigla.

Athugasemdir

athugasemdir