Vinnubrögðin stórhættuleg bifhjólafólki

Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglar mótmæla kröftuglega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í sumar á þjóðvegakerfi landsins. Farið er að notast við sérútbúinn vinnubíl sem stráir blöndu af möl og olíu á holur og vegskemmdir en slíkur bútasaumur er stórhættulegur bifhjólafólki. Engin skilti voru sett upp til viðvörunar lagfæringum þessum sem framkvæmdar voru á svokölluðum Flóttamannavegi í lok maímánaðar. “Þótt við fögnum viðgerðum á vegakerfinu finnst okkur vinnubrögð með þessum hætti vera forkastanleg og beinlínis dauðagildra fyrir bifhjólafólk” segir Njáll Gunnlaugsson, formaður Snigla. “Það er algjört lágmark að merkja framkvæmdir og þótt það geti hentað að nota bíla landsmanna til að þjappa saman olíumölinni eru bifhjól ekki hentug farartæki til slíkra verka. Við skorum á Vegagerðina að bæta eftirlit með þessum framkvæmdum og að skoða fleiri kosti þegar kemur að slíkum lagfæringum” sagði Njáll ennfremur. Sjá má myndband sem sýnir betur vinnubrögðin á Facebook síðu Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla.

Athugasemdir

athugasemdir