Úr vöndu að ráða þegar kemur að vegriðum

Víravegrið eru með mörgum óvörðum staurum og þess vegna óttast mótorhjólafólk þau, eins og annan fastan vegbúnað nálægt vegi.

Við getum öll verið sammála um að verstu umferðarslysin eru slys þar sem umferð mætist, sérstaklega við vegi þar sem að umferð kemur úr gagnstæðum áttum. Slíkir vegir eru mjög algengir hérlendis og líkt og víða erlendis skapar það mikla hættu. Víravegrið er ein gerð þeirra vegriða sem hafa verið notuð til að skilja að akstursstefnur og þótt að mörg lönd hafa kosið að nota þau ekki er notkun þeirra algeng í nokkrum löndum, til dæmis Svíþjóð, Ástralíu og Íslandi. Víravegrið eru einnig kölluð teygjanleg vegrið enda lýsir það vel virkni þeirra, en þau eru í raun nokkrir mikið strekktir vírar sem haldið er uppi af stálpóstum með stuttu millibili. Hönnunin er þannig að stærri ökutæki sem á þeim lenda eru gripin í vírana og dempa þannig höggið. Annar kostur við þau er hversu fljótlegt og ódýrt það er að setja þau upp.

Dýrara viðhald víravegriða

Þótt víravegrið geti verið góð á vissum stöðum þarf að gæta vel að því hvar óhætt er að setja þau upp. Víravegrið á vitlausum stað geta beinlínis verið hættuleg og gæta þarf að fara eftir þeim stöðlum sem framleiðendur setja, en sú hefur ekki alltaf verið raunin hér á landi. Sú mýta meðal mótorhjólafólks að kalla víravegrið ostaskera er gömul og á alls ekki við lengur og langflestir sem á nota mótorhjól vita vel að það er rangnefni. Hins vegar ber svo við að aðrir hagsmunaaðilar eru farnir að halda því fram að mótorhjólafólk kalli víravegrið þessu rangnefni en slíkt er fjarri sanni. Þeir sem þekkja þessi mál best vita vel að það eru stoðirnar sem auka hættuna fyrir mótorhjólafólk, og víravegrið þurfa fleiri stoðir með minna millibili auk þess sem þær eru óvarðari en á hefðbundnari gerðum vegriða. Auk þess geta krókar sem halda vírum á eldri gerðum víravegriða haft það í för með sér að krækja í þann óheppa mótorhjólamann sem á slíku lendir. Það er hins vegar ekki einungis mótorhjólafólk sem getur verið í hættu við víravegrið. Meira að segja minni háttar óhapp við víravegrið getur leitt til þess að það slaknar á vírnum.

Því miður er þetta algeng sjón, fallin staur vegna ákeyrslu og þess vegna er vegriðið ekki eins öruggt auk þess sem viðhald er dýrt.

Það er dýrt og tímafrekt að strekkja vírinn aftur og því miður gerist það oft að það líður talsverður tími áður en farið er að laga nokkra staði í einu, sem aftur þýðir að vírinn er sums staðar ónothæfur á meðan. Auk þess valda tíðar lokanir töfum og auka aftur hættu á slysum þar sem aðstæður eru erfiðar eins og á heiðum landsins að vetri til. Nýlega var banaslys í Svíþjóð á starfsmanni björgunarliðs þegar hann var að tryggja slysavettvang og varð fyrir vír sem slitnaði. Víravegrið láta líka undan þunga stórra ökutækja og virka ekki eins vel og til dæmis steinsteypt vegrið til að koma í veg fyrir að þau fari yfir á öfugan vegarhelming. Viðhald á steyptu vegriði er margfalt minna en á víravegriði svo að þegar horft er á kostnað til lengri tíma jafnast hann venjulega út. Það sem skiptir mótorhjólafólkið mestu máli er slétt og fellt yfirborðið á steyptu vegriði sem þýðir að sá sem á því lendir rennur venjulega eftir því sem á móti minnkar hættu á alvarlegum meiðslum.

Betri varnir fyrir mótorhjólafólk

En hvað er þá besta vegriðið fyrir mótorhjólafólk? Því var haldið fram á dögunum að víravegriðin væru ekki eins hættuleg mótorhjólafólki og áður en slíkt er auðvitað firra. Víravegrið og W-bitavegrið eru bæði hættuleg mótorhjólafólki en hvert á sinn hát. Það sem skiptir mótorhjólafólk máli er að hönnun vegriða sé rétt og hvaða vegrið séu notuð við hvaða aðstæður. Það er til dæmis ekki sniðugt að nota víravegrið á beygjukafla Kambanna, hvorki fyrir bíla né mótorhjól. Erfitt er að koma fyrir undirakstursvörnum á víravegriðum og of krappar beygjur með þeim geta einfaldlega þýtt að bíll sem á þeim lendir kastist aftur út á veginn. Í Kömbunum er notast við víravegrið í þrengri beygjum heldur en meira að segja framleiðendur slíkra vegriða mæla með. Auðveldara er að koma fyrir undirakstursvörnum á W-bita vegriðum en þau eru heldur ekki þau bestu og eru ekki góð nema búið sé að verja bitana að ofanverðu líka. Það hefur verið fundið því til foráttu að meiri snjór safnist við slíkar varnir en prófun á slíku á Hafnarfjarðarveginum leiddi ekkert slíkt í ljós. Bestu vegriðin eru steinsteypt og það vita allir sem að þessum málum koma. Þau eru dýrari í uppsetningu en um leið sterkari og þurfa miklu minna viðhald. Þess vegna ætti að skoða uppsetningu þeirra á stöðum þar sem hættan er mest. Þess vegna ætti líka að forðast þann óskapnað sem búið er að setja upp við Miklubrautina, um það getum við öll verið sammála. Mótorhjólafólk á rétt á því að tekið sé tillit til öryggis þeirra eins og annarra og þegar alvarlegum slysum við vegrið fjölgar verður krafan um slíkt hærri.

Athugasemdir

athugasemdir