Aðalfundur og skýrsla stjórnar

Stjórn Snigla 2018

Ný stjórn hefur haldið sinn fyrsta stjórnarfund eftir aðalfund og stefnir í viðburðaríkt sumar hjá Sniglum. Nokkrar breytingar urðu á stjórn, en Ingvar Örn Ingvarsson tók sæti í aðalstjórn þar sem hann var kosinn til næstu tveggja ára. Njáll Gunnlaugsson formaður, Kristján Ágústsson varaformaður og Steinmar Gunnarsson ritari voru kosnir til tveggja ára í fyrra, en Elías Fells gjaldkeri samtakanna var kostinn til tveggja ára að þessu sinni. Í varastjórn sitja nú Oddur Bjarnason áfram, en ný í varastjórn eru Þorgerður Guðmundsdóttir og Gísli Jensson.

Skýrsla stjórnar frá síðasta starfsári

Á aðalfundi Snigla þann 4. Marz 2017 var kjörin ný stjórn Snigla; hana skipa:

  1. Njáll Gunnlaugsson formaður
  2. Díana Hermannsdóttir fjölmiðlafulltrúi
  3. Elías Fells gjaldkeri
  4. Kristján E. Ágústsson varaformaður/meðstjórnandi
  5. Steinmar Gunnarsson ritari

Varamenn stjórnar eru:

  1. Hrönn Bjargar Harðardóttir
  2. Oddur Bjarnason
  3. Veigar Sigurður Jónsson

Eitt fyrsta verk nýs formanns, ásamt Séra Gunnari Kraftaklerki, var að funda með þáverandi samgönguráðherra Jóni Gunnarssyni. Á fundinum var rætt um hugsanleg veggjöld á mótorhjól, ný umferðarlög auk hvatningar til halda áfram fundum í Fagráði umferðarmála (Umferðarráð).

Ný stjórn ákvað að hafa opið hús í Skerjafirði alla miðvikudaga frá aprílbyrjun til loka septembermánaðar. Þetta var tilraun til að draga að fleiri hjólamenn og til að efla félagsandann. Mæting var allt frá því að vera léleg og upp í að vera húsfyllir, svo óhætt er að segja að tilraunin hafi tekist, en við getum gert betur. Sami háttur verður hafður á á nýju starfsári.

Stjórnin ákvað að gera sitt til að efla tengsl við mótorhjólaklúbba landsins og fyrsti áfanginn var að heimsækja Rafta í Borgarnesi og kynna Snigla og þeirra starf. Einnig voru Gaflarar heimsóttir og Grindjánar tóku á móti stjórn á haustdögum. Stefnt er að því að halda þessu starfi áfram á komandi starfsári.

Vorfundur bifhjólafólks var haldin í samstarfi Samgöngustofu, Lögreglunnar og Vegagerðarinnar. Fundurinn var sæmilega sóttur og voru rædd ýmis mál sem tengjast öryggi bifhjólamanna. Fór fundurinn vel fram og var þáttaka með betra móti.

Fyrsta Maí keyrslan var að venju haldin á sínum upphafsstað og var endastaðurinn Kirkjusandur. Stundum hefur viðrað betur, en þó snjóaði ekki, en aftur á móti rigndi allsvakalega. Það kom þó ekki í veg fyrir að um 300 manns mættu á sínum hjólum til að taka þátt og margir litu við á Kirkjusandi, ýmist akandi eða gangandi. Að venju kom sterkur hópur Snigla að framkvæmd keyrslunnar og voru félagar í Göflurum þar fremstir í flokki, en Sniglar sömdu sérstaklega við Gaflara um að aðstoða við stjórnun og framkvæmd akstursins að þessu sinni.

Mótorhjólamessan var á sínum stað undir styrkri stjórn Kraftaklerksins. Að venju voru seldir hamborgarar sama dag á Grillhúsinu við Sprengisand. Andvirði þeirrar sölu er jafnað með framlagi Snigla og eru þessir peningar afhentir Hollvinasamtökum Grensás. Að þessu sinni söfnuðust 520 þúsund krónur til handa Hollvinasamtökunum að þessu sinni.

Sniglar hafa lengi predikað fyrir auknu öryggi mótorhjólamanna og sama var uppi á teningnum þegar hrundið var af stað akstrustækninámskeiði. Njáll formaður hafði veg og vanda að undirbúningi námskeiðanna, sem voru sett af stað og framkvæmd með undraskömmum fyrirvara. Með fulltingi SMC í Svíþjóð, var fenginn til landsins aksturstækniþjálfari sem hélt, ásamt Sniglum, tvö námskeið; eitt á braut Kvartmíluklúbbsins og annað á spyrnubraut BA á Akureyri. Þáttaka var því miður ekki eins og vonast hafði verið eftir, en á fyrra námskeiði mættu 12 manns, en ekki nema 5 á það seinna. Við efumst samt ekki um að þáttaka mun verða meiri eftir því sem fleir námskeið verða haldin og menn komast að því að þau geta einungis komið að gagni í daglegri umferð.

Í samstarfi við Netökuskólann hafa Sniglar farið af stað með þýðingarverkefni á norskri handbók mótorhjólamanna sem ber heitið „Full Kontrol“. Stefnt er að netúgáfu bókarinnar fyrir 1. Maí 2018.

Ný stjórn hefur ræktað sambandið við FEMA og er engum blöðum um það að fletta að þar getum við Sniglar, og þar með allir hjólamenn Íslands, einungis grætt. Í FEMA starfar hópur öflugra talsmanna okkar gagnvart Evrópusambandinu, reglugerðum þess og öllu umhverfi mótorhjólamanna.

Í nóvember gerðist það að Díana Hermannsdóttir baðst lausnar úr stjórn Snigla. Sem varamaður tók við af henni Hrönn Bjargar Harðardóttir og mun hún skipa sæti hennar til aðalfundar.

Elías gjaldkeri hefur lagt á sig mikla vinnu við tiltekt í félagatali Snigla og endurskipulagningu fjármála sem og ýmissa kostnaðarliða sem var hægt að sleppa eða breyta til hagræðingar, en án þess að það komi niður á starfi Snigla.

Þar sem endurskoðuð umferðarlög verða lögð fyrir vorþing, lögðust Sniglar yfir lögin, lásu þau og rýndu af kappi og að endingu var skilað inn athugasemdum sem snúa að því sem við getum kallað „tvíhjóla vélknúnum ökutækjum“ TVÖ.

Í undirbúningi er uppfærsla á heimasíðu Snigla, en ekki ehfur verið tekin ákvörðun um í hvaða átt skal stefnt með heimasíðuna.

Á sumri komanda er stefnt að því að halda svokallaðan súpudag, þar sem mótorhjólafólk safnast saman á fallegum stað á annesi á höfuðborgasvæðinu og fær sér heita súpu og kaffi á eftir. Einnig hefur komið til tals að vekja til lífsins einhverjar skemmtanir fyrir hjólafólk, en það mun verða kynnt betur innan skamms.

Athugasemdir

athugasemdir