Sniglar minna á sig með árlegum hópakstri á 1. maí

Sú venja hefur skapast hjá okkur að halda upp á byrjun sumars með hópakstri þann 1. maí. Þótt ekki sé útlit fyrir að veðrið vinni með okkur í þetta skiptið ætlum við að halda viðburðinum til streitu, hittast eins og vani er neðst á Laugaveginum (við Bankastræti/Ingólfsstræti) og hjóla varlega og eftir aðstæðum sem leið liggur eftir merktri leið um Sæbraut og Vesturlandsveg til Bauhaus. Við Bauhaus munum við svo safnast saman fyrir framan Garðaland, ylja okkur með því að vappa um svæðið, skoða mótorhjól, horfa á skemmtiatriði og fá okkur léttar veitingar.

Planið er að byrja að safnast saman neðst á Laugaveginum kl. 11:00. Við leggjum svo af stað í lögreglufylgd kl. 12:30 og endum á planinu hjá Bauhaus kl. 13:00.

Styðjið við baráttu Sniglanna með greiðslu árgjaldsins

Sniglar eru elstu starfandi bifhjólasamtök lýðveldisins og hefur starfsemin undanfarin ár sífellt meira snúist um að gæta hagsmuna mótorhjólafólks, þá sérstaklega í öryggis- og tryggingamálum. Unnið er að því þessi misserin að fjölga félögum í Sniglum með það fyrir augum að geta unnið betur að hagsmunum alls mótorhjólafólks en þar er mikil barátta framundan. Mikilvægt er að vekja athygli á því á þessum tíma árs að lítið tillit er tekið til mótorhjólafólks í umferðarmálum.

Við fögnum því núna að það hefur tekist að fjölga félögum í ár og þar með hefur þróun síðustu ára snúist við. Þetta gerir okkur betur kleift að berjast fyrir hagsmunum mótorhjólafólks um allt land en um það starf er hægt að lesa meira um hér á vefsvæði Sniglanna.

Sjáumst í hópakstrinum!

Athugasemdir

athugasemdir