Forvarnir

Bifhjólasamtök lýðveldisins hafa ávallt sett forvarnarmál á oddinn í sínu starfi, hvort sem er með jafningjafræðslu hjá skellinöðrukrökkum í grunnskólum eða með gerð metnaðarfullra umferðarátaka. Fyrsta stóra umferðarátak Snigla var unnið árið 1992 í framhaldi af slysabylgju áranna á undan. Með styrk frá tryggingarfélögunum og Umferðarráði voru gerð fimm sjónvarpsinnskot sem fjölluðu um áfengi, hlífðarfatnað, hraðakstur og hættur í umferðinni. Átakið kristallaðist í boðskap til bílstjóra “sérðu mótorhjól? Líttu aftur.” Strax varð merkjanleg fækkun slysa enda átakið vel kynnt og mikið spilað í fjölmiðlum og kvikmyndahúsum. Fyrsta árið náðist 15% fækkun slysa þrátt fyrir fjölgun hjóla í umferð. Átakið þótti það vel heppnað að sænsku mótorhjólasamtökin SMC keyptu sýningarrétt af því eftir að hafa séð það á fyrsta EMA (European Motorcycle Association) fundi Snigla árið 1995. Samtök þessi sem seinna runnu saman við FEM og urðu að FEMA, eru hagsmunasamtök alls mótorhjólafólks í Evrópu með starfstöð í Brussel, höfuðstöðvum Evrópusambandsins.

Næsta stóra umferðarátak Snigla var gert árið 1997 en þá voru gerð tvö sjónvarpsinnskot til viðbótar. Voru bæði nýju innskotin byggð á sláandi tölum sem birst höfðu í slysarannsókn á mótorhjólaslysum fyrir árið 1995, en þar kom fram að allt að helmingur slysa varð á lánshjólum. Með það í huga réðust samtökin í samstarfi við Rannsóknarnefnd umferðarslysa í eina metnaðarfyllstu slysarannsókn sem fram hefur farið hér á landi. Skoðuð voru öll mótorhjólaslys á tímabilinu 1991-2000 eða í 10 ár samfleytt. Þau umferðarátök sem gerð hafa verið á undanförnum árum byggja að mestu leyti á þessari rannsókn, nú síðast þrjú myndbönd um mótorhjólaslys sem gerð voru fyrir tilstilli Umferðarstofu.

Ekki má heldur gleyma auglýsingum sem birst hafa á strætisvögnum sem minna á að við, líkt og blessaðar beljurnar, komum líka út á vorin. Umferðarátakið í fyrra fólst loks í því að Sniglar klæddust vestum í björtum lit með boðskap til bílstjóra, “Sérðu mig núna?” Þó öll þessi vinna Snigla sé góð og blessuð má heldur ekki gleyma því að mikilvægustu forvarnirnar eru oft meðal félaganna sjálfra, enda dettur frekar fáum í hug að mæta á hjólinu niður í bæ í gallabuxum og strigaskóm. Mótorhjólafólk er líklega sá umferðarhópur sem duglegastur er í forvarnarstarfi. Það veit líka enginn betur en hjólafólkið sjálft hversu berskjölduð við erum í umferðinni.

BÍLSTJÓRI, LÍTTU TVISVAR !