10/9/2018

Ör fjölgun í Sniglum vísar á bjarta tíma

Höfundur:
Ingvar Ingvarsson
Hjólamenningin

Frá því að Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, voru stofnuð 1984 hefur félagatalið rokkað upp og niður. Í byrjun voru meðlimir um hundrað talsins og ári síðar um tvö hundruð. Árið 2017 voru greiðandi meðlimir Snigla 231 og var kominn tími til að ýta við starfseminni í þeim tilgangi að gæta hagsmuna mótorhjólafólks á Íslandi, bæta slysavarnir og þjappa saman bifhjólafólki.

Ný stjórn réðist í átak á liðnum vetri og með góðum stuðningi mótorhjólafólks um land allt hefur tekist að nánast tvöfalda greiðandi meðlimi í 460. Breiðara bakland skiptir sköpum því samvinna eykur slagkraft samtakanna.

Framundan er því nýtt skeið í starfi Sniglanna þar sem við munum hægt, en bítandi, auka sýnileika samtakanna og styrkja áðurnefndan tilgang samtakanna.

Nú þegar hefur nýrri heimasíðu verið hleypt í loftið og venjubundir viðburðir eins og hópkeyrsla á 1. Maí, Landsmót og opin hús í Sniglaheimilinu hafa verið vel sóttir. Þá eru Sniglar virkir í Evrópusamtökum bifhjólafólks (FEMA) en þaðan sækjum við mikinn fróðleik og eigum bakland þegar á þarf að halda t.d. í tengslum við hagsmunabaráttu okkar gagnvart stjórnvöldum, stofununum og tryggingafélögum.

Við þökkum fyrir veittan stuðning og hvetjum mótorhjólafólk til að skrá sig í Sniglanna og styðja samtökin til góðra verka, og ef einhverjir vilja leggja hönd á plóg þá eru sterkar hendur vel þegnar sömuleiðis.

PS, hæsta númer Snigils er núna 2421 – það yrði stórglæsilegur árangur ef við næðum 2500 fyrir árslok. Okkur þætti því vænt um að félagar okkar deildu fréttinni og skoruðu á mótorhjólafólk að ganga í samtökin.

...

Nýlegar fréttir