Saga Snigla

Upphaf og stofnun Snigla og fyrstu ár samtakanna.

k2_items_src_01eec10693d9896b4d757174d0f20dd9Það var um haustið 1983 að lögð voru drög að því að stofna mótorhjólaklúbb fyrir eigendur stórra mótorhjóla eftir hópakstur sem farinn var þá um haustið. Svo var það skömmu eftir áramót að Súper Lúlli no 69 setti inn auglýsingu í DV um að stofna ætti mótorhjólaklúbb og var sá fundur haldin að Æsufelli 2 og mættu 22 á þennann fund sem var haldin heima hjá Lúlla. Á fundi þessum var kosin undirbúningsnefnd til að annast þá vinnu sem þurfti að vinna fyrir stofnfundinn. Í nefnd þessari voru Hilmar no 1, Ari Sveppur no 37, Súper Lúlli no 69, Dóri no 30 og Halli Ingþórs no 25.

Undirbúningsnefndin fór þá að reyna að safna félögum á stofnfundinn og gekk það misjafnlega, en Ari var með verkstæði í Borgartúninu og þangað komu margir hjólamenn og lét Ari þá alla vita af því sem í vændum var. Aðrir í nefndinni notuðu sínar leiðir til að láta vita og var til dæmis Óskari no 65 á Skagaströnd sent póstkort með áletrun eitthvað á þessa leið: Óskar Kristinsson á Kawazaki 1300 545 Skagaströnd og þar með var hann látinn vita um tíðindin. Einnig var mikið notuð sú aðferð að ef mótorhjól sást á ferð var það elt eins lengi og þurfa þurfti eða þar til að viðkomandi ökumaður stoppaði og honum bornar fréttirnar.

Hinn formlegi stofnfundur var svo 30 mars í Þróttheimum og var annar fundur daginn eftir 1 apríl og miðast stofndagur Snigla við þann fund. Á stofnfundinum var svo klúbburinn nefndur og vildi Skúli Gauta no 6 hafa nafnið formlegt og frá honum kom svo nafnið Bifhjólasamtök Lýðveldisins og frá Gúnda no 12 kom nafnið Sniglar og átti þetta að vera hans gálgahúmor en var samþykkt með miklu lófaklappi. Áður höfðu komið upp hugmyndir af hinum ýmsu nöfnum eins og t.d. Bifhjólaáhugamenn í Reykjavík og nágrenni skammstafað BARON og ROTA sem mun þýða hjól á latínu svo eitthvað sé nefnt.

Tilgangur að stofnun samtakanna var í upphafi fyrst og fremst að sameina mótorhjólamenn og ferðast saman á mótorhjólum og að fá hjólamenn til að taka niður hjálmana (á þeim tíma tóku menn ekki niður hjálmana ef þeir stoppuðu á almannafæri).

Merki samtakanna teiknaði Friðgeir Axfjörð no 73 og kom hann með tvær hugmyndir af merki það sem er enn notað í dag og annað sem var sláandi líkt merki lögreglunnar nema þar sem stendur: Með lögum skal land byggja var letrað: Með SNIGLUM skal land byggja. Þegar merkið var komið hófst ágreiningur um það á hvora ermina merkið skyldi saumað. Stjórnin lagði til að merkið skyldi saumað á vinstri öxl svo að menn gætu snert merkið með hægri hönd þegar þjóðsöngurinn er sunginn, en töffararnir vildu hafa merkið á hægri öxl svo að stelpurnar ættu betur með að sjá merkið frá gangstéttinni þegar Sniglar væru á ferð og stjórnin varð ofaná í þessum ágreiningi.

Ferðir:

Fyrstu ár samtakanna voru ferðir að þróast í þá mynd sem þær eru nú, en fyrstu 2 árin var varla farin sú ferð að ekki væri gist í tjöldum þó voru til undantekningar og voru fyrstu ferðir snigla því oft minnisstæðar vegna bleytu, kulda og vosbúðar.

Fyrsta sniglaferðin var í Galtalæk um vorið 1984 og var mæting svo góð að næstum helmingur snigla mætti (enda ekki margir í byrjun).

Elsta ferð snigla er Landmannalaugaferð snigla og hefur hún verið látlaust frá því um haustið 1984 og eru nokkrir sniglar sem hafa farið yfir 10 sinnum í Landmannalaugaferð ( í upphafi var aðeins sofið í tjöldum en ekki í skála eins og nú og átti Landmannalaugaferð að vera einhverskonar manndómsferð til að sýna hreysti viðkomandi og vildu sumir sniglar hafa þetta sem vígslu þess efnis að þeir sem höfðu farið í þessa ferð teldust fullgildir sniglar).Einnig var ein ferð sem farin var árlega á vegum snigla allt frá 1984 og var það hópferð á mótorhjólasýningu í Englandi og var flest í þessari ferð haustið 1987 eða um 25 sniglar, en þessar ferðir lögðust af upp úr 1990 vegna mikillar kreppu í buddum snigla.

Landsmót:

Fyrsta landsmót snigla var haldið strax sumarið 1984 en mætingin var innan við 10 sniglar og var landsmót ekki haldið aftur fyrr en í Húnaveri í júnílok 1987 og voru um 120 hjólamenn á því landsmóti á því landsmóti mátti hver snigill bjóða með sér einum gesti utan samtakanna svo að þetta landsmót var tiltölulega lokað mót og fengu engir að fara inn á svæðið aðrir en sniglar (ekki einu sinni löggan) var þeim meinaður aðgangur að svæðinu.

Árið eftir var landsmót komið á þá helgi sem það er á núna og með svipuðu sniði og það er enn í dag, nema að fyrstu fjögur árin var Heiddi no 10 yfirbryti snigla og stjórnaði hann allri matseld á landsmótunum sem voru haldin í Húnaveri 4 ár í röð. Þau ár sáu Hjörtur no 226 og Óskar no 65 um að safna rekaviði í brennu á landsmóti sem logaði allt landsmótið (nema einu sinni þegar hrekkjóttur snigill kveikti of snemma í öllum eldiviðinum við litla kátínu landsmótsgesta).

Flestir gestir á landsmóti var í Húnaveri á 10 ára afmælislandsmótinu 1994 og voru tæplega 500 sem borguðu sig inn á það landsmót.

Nokkrar staðreyndir og sögulegar upplýsingar um snigla:

Eins og allir sniglar vita bera allir sniglar númer og má sjá hvaða ár hver snigill kom inn í samtökin eftir númerum ( nema 13 númer sem var úthlutað aftur og eiga þeir sniglar sem þau númer bera að vera með númer á milli 220 og 300), 1984 eru númer undir 69, 1985 númer 70-118 , 1986 119 – 162 og 1987 163 –274. Það var stjórnin sem var 1987-88 sem gerði þau mistök að láta út númer snigla sem ekki höfðu greitt í 2 ár annars hefði verið hægt að sjá hverjir hefðu verið sniglar frá upphafi ( þetta voru númer, 8, 22, 23, 28, 31, 40, 41, 45, 46, 60, 64, 80, 82 ).

Gæsla:

Fyrsta gæsla snigla mun hafa verið sjálfskipuð og hreinlega í neyð. Það var þegar sniglar voru að fara á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 1986. Þurfti að verja bryggjuna fyrir æstum almúganum vegna þess að Ferðamálaráð Vestmannaeyja hafði fengið færeysku ferjuna Smyril til að flytja þjóðhátíðargesti út til Eyja og seinkun var svo mikil á ferjunni að ferðirnar 2 sem átti að fara var gerð að einni. Hélt þá skríllinn að ekki væri pláss fyrir alla þá sem voru á bryggjunni. Ruddist mannfjöldinn þá fram á bryggjuna og hugðist troðast um borð. Þá voru það sniglar sem tóku á það ráð að mynda keðju og hleypa inn á bryggjuna í skömmtum svo enginn træðist niður við þessar aðfarir (launin sem sniglar fengu var út að borða í boði Ferðamálaráðs Vestmannaeyja og matseðillinn var 1 hamborgari og 1 kók). Eftir að fréttist af þessu voru sniglar fengnir til að sjá um gæslu fyrir ýmsa aðila gegn greiðslu og fengu samtökin allan peninginn fyrir sem rann í sjóð samtakanna og var þetta svona þar til að farið var að fórna verslunarmannahelgi í barnapössun í Húnaveri að sniglar fengu greitt í sinn vasa fyrir unna vinnu þar sem verið var að fórna þessari helgi.

Fjáröflun:

Sniglar hafa einnig rekið hraðsendlaþjónustu og var það fyrir Happdrætti Háskólans sumarið 1992 og var það við að safna saman lukkumiðum sem kölluðust Happó. Við þetta störfuðu 10-15 sniglar á hverjum laugardegi á milli 4 og 5. Fólst þessi vinna í að safna saman happómiðum og varð þetta að gerast á innan við klukkutíma og korter. Bifhjólasamtökin högnuðust vel á Happóinu sérstaklega vegna þess að Hjörtur Líklegur no 56 og Alfreð no 583 endurskoðandi gerðu þannig samning við Happdrætti Háskólans að þegar Happóið hætti fyrr en áætlað var varð Happdrætti Háskólans að kaupa sig frá samningnum við snigla.

Sniglar héldu mótorhjólakvartmílukeppni sumarið 1989 til styrktar Krýsuvíkursamtökunum og tóku um 35 mótorhjól þátt í þessari keppni og rann allur ágóði af þessari keppni til Krýsuvíkursamtakanna sem var um 90,000. Þess má geta að á milli 700 og 900 manns kom og sá þessa keppni sem var upphafið af keppnishaldi snigla- bikarmóti í kvartmílu á mótorhjólum næstu ár á eftir.

Sniglabandið:

Sniglabandið var upphaflega stofnað af félögum sem allir voru í sniglunum, en þegar Sniglabandið spilaði síðast var enginn af stofnendum þess í hljómsveitinni. Í fyrsta Sniglabandinu voru: Óli Mótorskussi no 11 söngur, Skúli Gauta no 6 gítar, Siggi Kollþrykktur no 55 á trommur , Stubbur bassi (Bjarni Bragi) no 52 á bassa og Ásgeir Sverrisson á gítar sem hoppaði inn í bandið þetta eina ball, svo var eitthvað um gestasöngvara á þessu fyrsta balli hljómsveitarinnar sem var í Félagsheimilinu í Garðinum suður með sjó í september 1985.