Lög snigla

Um samtökin

1. gr. Nafn, heimili og varnarþing

Nafn samtakanna er Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar.

Merki og nafn samtakanna er einkaleyfisverndað samkvæmt einkaleyfi nr. 1046/1994. Merkið er hvítt á svörtum grunni áletrað nafni samtakanna og með mynd sem er bæði táknræn fyrir nafnið og starfsemina. Merkið er selt félagsmönnum og þar með eign þess er það kaupir.

Varnarþing samtakanna skal vera í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur

Tilgangur samtakanna er að koma á sem víðtækustu samstarfi bifhjólafólks á Íslandi, gæta hagsmuna þeirra og bæta aðstöðu til ánægjulegri bifhjólamenningar, með því að:

  • Vinna að og fylgjast með nauðsynlegum endurbótum á umferðarlögum, kennslureglum, reglum um skoðun og tryggingar bifhjóla og iðgjöld vegna þeirra, opinberum gjöldum og öðru er við kemur bifhjólum.
  • Efla vélhjólaíþróttir og vinna að því að skapa bifhjólamönnum aðstöðu til að stunda íþrótt sína á viðurkenndum svæðum.
  • Stuðla að auknum skilningi á málefnum samtakanna út á við.
  • Ná sem víðtækustu samstarfi við önnur félög, samtök og einstaklinga um meðferð og notkun bifhjóla.
  • Efna til félagsstarfsemi s.s. funda og mannfagnaða.
  • Vera fulltrúi félagsmanna gagnvart hinu opinbera.
  • Hvetja bifhjólafólk til að sýna aðgæslu og gott fordæmi í hvívetna í umferðinni og gagnvart náttúru landsins með góðri umgengni.

3. gr. Vefsíða, upplýsingamiðlun

Tilgangur vefsins er að miðla upplýsingum um hagsmunabaráttu bifhjólafólks, fróðleik um bifhjólamenninguna og greina frá starfsemi samtakanna. Stjórn samtakanna skipar ritstjórn fyrir vefsíðu Snigla og afmarkar verksvið hennar. Ritstjórn skal skipuð a.m.k. tveimur mönnum, ritstjóra og vefstjóra, sem eru ábyrgir gagnvart stjórn fyrir útliti og innihaldi þess efnis er birt er á vefsíðu. Ritstjórn annast viðhald og þróun á heildarútliti síðunnar. Samþykki stjórnar samtakanna þarf fyrir meiriháttar breytingum á vefsíðu Snigla.

  • Stjórn og starfandi nefndir skulu kynna reglulega starfssvið og verkefni sín á heimasíðu Snigla.
  • Önnur útgáfustarfsemi á vegum samtakanna skal fara eftir ákvörðunum stjórnar.
  • Ritari stjórnar samtakanna er ábyrgðarmaður alls útgefins efnis samtakanna, þar með talið vefsíðunnar.

Aðild

4. gr. Félagsmenn

Hver sá einstaklingur sem fullnægir eftirtöldum inntökuskilyrðum getur orðið félagi í samtökunum:

  • Sé fullra átján ára. Nái umsækjandi ekki þeim aldri þarf undirritað samþykki frá foreldrum eða forráðamönnum að fylgja umsókn.
  • Hafa greitt fullt umsóknargjald sem er ákveðið af stjórn og er óendurkræft.

Þegar stjórn samtakanna hefur samþykkt umsókn fær nýr félagsmaður Sniglanúmer og taumerki.
Meirihluta stjórnar þarf til að umsókn um félagsaðild teljist samþykkt.
Félagsmaður sem starfs síns vegna fyrir samtökin býr yfir trúnaðarupplýsingum um annan félagsmann eða málefni honum tengd er bundinn þagnarskyldu vegna þeirra upplýsinga. Þagnarskylda gildir áfram þó svo að félagsmaður hætti í samtökunum.

Fjármál

5. gr. Fjármál

Rekstur samtakanna skal fjármagnaður með árgjöldum, útgáfustarfsemi og þ.h.
Aðalfundur samtakanna ákveður fjárhæð félagsgjalds fyrir ár hvert. Fyrirkomulag á greiðslu árgjalda fer eftir ákvörðun stjórnar. Félagsmaður telst fullgildur og atkvæðisbær á aðalfundi hafi hann greitt áfallið félagsgjald.
Stjórn ber ábyrgð á rekstri samtakanna milli aðalfunda.
Fjórðungur af nettóhagnaði samtakanna ár hvert skal renna í sérstakan varasjóð sem einungis má ráðstafa til að bregðast við neyðartilfellum sem upp kunna að koma að mati stjórnar. Tryggt sé að varasjóðurinn njóti á hverjum tíma hagstæðustu innlánskjara sem í boði eru um slíka bankareikninga. Höfuðstóll varasjóðs skal þó aldrei vera hærri en fjórar milljónir króna. Enginn félagsmaður getur átt tilkall til hluta af sjóðnum þó hann hverfi úr samtökunum eða að þeim sé slitið.

Aðalfundur o.fl.

6. gr. Aðalfundur

Aðalfundur Snigla skal haldinn fyrsta laugardag í mars ár hvert. Skal þar taka fyrir venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum samtakanna. Stjórn boðar til aðalfundar með birtingu tilkynningar á heimasíðu Snigla með a.m.k. tíu daga fyrirvara. Á fundinum skal kynna samantekt á reikningum samtakanna. Fundargerð aðalfundar og eintak af endurskoðuðum ársreikningi skulu birt á vefsíðu Snigla eigi síðar en þrjátíu dögum eftir aðalfund. Reikningsár samtakanna skal vera almanaksárið. Aðalfundur er því aðeins löglegur að löglega sé til hans boðað. Stjórn boðar til aukaaðalfundar þegar hún telur þess er þörf eða ef a.m.k. 1/5 hluti fullgildra félaga samtakanna óska þess enda geri þeir áður grein fyrir fundarefni. Til aukaaðalfundar skal boða skriflega með a.m.k. tíu daga fyrirvara. Að öðru leyti gilda sömu reglur um aukaaðalfundi eins og gilda um aðalfundi í lögum þessum. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir fullgildir félagar. Stjórn getur einnig boðið öðrum á fundinn, ef sérstök ástæða þykir til. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis mættir fullgildir félagar. Formaður setur fundinn og skipar fundarstjóra. Fundarstjóri sker úr um öll atriði er varða meðferð mála og atkvæðagreiðslur á fundinum, nema sérstök ástæða sé til að vísa álitaefni til fundarins. Fundarstjóri gerir tillögu um fundarritara. Ekki er skilyrði að fundarstjóri og fundarritari séu félagsmenn í Sniglum. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
  • Skýrslur stjórnar og starfandi nefnda.
  • Endurskoðaður ársreikningur liðins árs.
  • Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
  • Ákvörðun félagsgjalda fyrir næsta ár.
  • Lagabreytingar samkvæmt 11. grein.
  • Kosningar samkvæmt 7. grein.

Önnur mál

7. gr. Kosningar á aðalfundi

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum. Þeir eru kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn samkvæmt eftirfarandi reglu:

  • Formaður stjórnar skal kosinn annað hvert ár til tveggja ára í senn.
  • Tveir stjórnarmenn skulu kosnir árlega til tveggja ára þannig tryggt sé að tveir þeirra haldi áfram á milli ára.
  • Þrír varamenn í stjórn skulu kosnir til eins árs í senn.

Stjórn skal starfa skv. 8. grein.

Þá skulu eftirtaldir einnig kosnir á aðalfundi:

  • Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til eins árs í senn.

8. gr. Stjórn Snigla

Stjórn skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti en því að formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skal skipa í embætti varaformanns stjórnar, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Stjórn skal tilnefna fjölmiðlafulltrúa fyrir samtökin, en ekki er skilyrði að hann komi úr hópi stjórnarmanna. Verkaskipting stjórnar skal kynnt á heimasíðu Snigla. Stjórn skal skipa í nefndir samkvæmt 10. grein.

Formaður boðar til stjórnarfunda eftir því sem þörf krefur eða ef tveir stjórnarmenn óska enda hafi þeir áður gert grein fyrir fundarefni. Tryggt skal að stjórn geti komið saman með stuttum fyrirvara. Forfallist aðalmenn í stjórn eða hætti störfum skal kalla til varamenn í þeirra stað.
Varamenn taka sæti í stjórn eftir atkvæðamagni frá aðalfundi. Taki varaformaður stjórnar við sæti formanns skal stjórn skipa nýjan varaformann og kalla til varamann til að taka sæti í fullskipaðri stjórn.

Hlutfall atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum, þó er ályktun því aðeins lögleg að eigi færri en þrír stjórnarmenn samþykki hana. Falli atkvæði á jöfnu hefur atkvæði formanns úrslitavægi.
Stjórn hefur á hendi rekstur samtakanna milli aðalfunda, hefur eftirlit með nefndum og kemur fram fyrir hönd samtakanna.
Stjórnarmenn, bæði aðal- og varamenn, eru undanþegnir greiðslu árgjalds og teljast fullgildir meðlimir.

9. gr. Aðrar nefndir

Stjórn skipar í starfandi nefndir strax á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Ný framboð til setu í nefnd skulu berast á aðalfundi eða eigi síðar en 30 dögum eftir aðalfund. Að þeim tíma liðnum skal stjórn auglýsa eftir þátttöku í nefndir á vefsíðu Snigla. Stjórn tilnefnir einn fulltrúa í hverja nefnd sem er tengiliður við stjórn. Fjármál nefnda skulu að mestu eða öllu leyti vera í höndum gjaldkera samtakanna. Nöfn nefnda vísa til verksviðs þeirra og skulu þær starfa eftir bestu getu og hafa hagsmuni félagsmanna og bifhjólafólks almennt að leiðarljósi.

Stjórn tilnefnir fulltrúa í nefndir og ráð á vegum hins opinbera.

Stjórn er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsemi nefnda á vegum Snigla en efni slíkra framkvæmdareglna skal kynnt í heild sinni á heimasíðu samtakanna.

10. gr. Lagabreytingar

Lagabreytingar skulu lagðar fram á aðalfundi enda hafi þeirra verið getið í fundarboði. Lagabreytingar öðlast gildi ef 3/4 hlutar mættra fullgildra félaga eru þeim samþykkir.

Tillögur til lagabreytinga skal senda laganefnd skriflega eigi síðar en 15 dögum fyrir aðalfund. Allar þær tillögur að lagabreytingum sem laganefnd hafa borist innan þeirra tímamarka skal stjórn kynna orðrétt með birtingu aðalfundarboðs á heimasíðu Snigla.

11. gr. Slit

Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Sniglum, verður aðeins slitið á aðalfundi.

Þarf til þess samþykki ¾ hluta mættra fullgildra félaga. Fundur sá er samtökunum slítur ráðstafar eigum þeirra til góðgerðarmála. Til þess að slit samtakanna öðlist endanlegt gildi þarf samþykki tveggja aðalfunda og samþykki ¾ hluta mættra fullgildra félaga á hvorum fundi.

12. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi strax að loknu samþykki þeirra í heild sinni og eru öll eldri lög samtakanna þar með fallin úr gildi.

Þannig samþykkt á aðalfundi Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla 27. febrúar 2016. 

Hrönn Bjargar Harðardóttir, Formaður stjórnar

Scroll to Top