25/9/2018

Sniglar og Fema

Höfundur:
Steinmar Gunnarsson
Hagsmunamál

Fema og IFZ í Köln

Málin sem verða rædd á haustfundi Fema og öryggisráðstefnubifhjólafólks í Evrópu

Formáli

Eins og flestum meðlima Snigla er kunnugt um, tökum við þátt í starfi Fema (Federation of European Motorcycle Associations). Sniglar hafa verið virkir þátttakendur í Fema síðan 1995, eða í 23 ár. Fema eru Evrópskt samband hagsmunasamtaka mótorhjólafólks viða að í Evrópu, allt frá Íslandi í vestri til Tékklands í austri, Norðurlöndunum sem og mörgum landa Evrópusambandsins.Höfuðstöðvar Fema eru í Brussel og þar eru flestir fundir sambandsins haldnir með þátttöku aðildarfélaga þrisvar á ári. Fema er með 2 fasta starfsmenn sem vinna í málum þeim sem snerta allt sem kemur að hagsmunagæslu hjólafólks, samahvort um er að ræða reglur um ökuskírteini eða setningu öryggisstaðla í vegahönnun, allstaðar eru starfsmenn Fema með puttann á púlsinum.

Komandi starf

Fyrirliggjandi er fundur sambandsins um næstu mánaðarmót,eða laugardaginn 29. September næst-komandi. Á þeim fundi verður meðal annars rætt um svokallaðan „Þriðja hreyfanleika pakka“ (Third Mobility Package) Pakki þessi snýst um framtíðar stefnumörkun í hönnun og byggingu umferðarmannvirkja með því augnamiði að reyna að koma í veg fyrir sem flest slys af völdum illa hannaðs veg-umhverfis. Nánar má lesa um málið á eftirfarandi slóð: http://www.fema-online.eu/website/index.php/2018/05/24/third-mobility-package/

Önnur mál snúa beinlínis að auknu öryggi bifhjólafólks, tryggingum bifhjóla; sem er eitt af okkar hjartans málum, hertum reglum um hávaða, ekki bara mótorhjóla, heldur allra ökutækja, þróun í þeirr tækni sem nútíma bifhjól eru búin og svo má lengi telja. Af þessu má sjá að starfið innan Fema er ekki tíma- eða peningasóun, heldur nauðsynleg þátttaka í starfi sem helgað er báráttu fyrir auknu öryggi bifhjólafólks, betra umhverfi (mannvirki) og nákvæmt eftirlit með ESB batteríinu sem á það til að setja reglur án nokkurs fyrirvara og án samráðs við hagsmunaaðila.

IFZ í Köln 1.-2. Október 2018

Institut für Zveiradsicherheit (www.ifz.de) er stofnun sem fer með öryggis- og hagsmunamál bifhjólamanna í Þýskalandi og reyndar um allt meginland Evrópu. Ifz er aðili að umferðarráði þeirra Þýðverja,ásamt því að vera samstarfsaðili tryggingafélaga, hagsmunasamtaka ökumanna, skoðunarbatterís þeirra; TÜV, og fleiri aðila. Stofnunin er hafsjór fróðleiks og gagna sem snúa að öryggismálum bifhjólamanna og eru gögnin aðgengileg hjá stofnuninni. IFZ stendur einnig fyrir Þýskum og alþjóðlegum rannsóknum á umferð og flestum þeirra mála sem hafa einhvern snertiflöt við þetta viðfangsefni sem snýr að okkur bifhjólafólki.

Dagskráin og Sniglar

Dagskrá ráðstefnunnar er í helstu dráttum sem hér segir:

Ø Öryggi bifhjóla með aktívu inngripi sjálfvirkra stjórntækja

Ø Öryggi bifhjóla í Þýskalandi: Viðhorf og hegðun með tilliti til sjálfvirkra stjórntækja

Ø Þróun árekstrarmódels (bifhjól með ökumanni) til nota við prófanir ADAS

Ø Takmarkanir sjálfvirks hemlakerfis bifhjóla

Ø Fyrirbygging þverskriðs í beygjum

Ø Hönnun bifhjóla með tilliti til sjálfkeyrandi ökutækja

Ø Hvernig sjá ökumenn bíla mótorhjól ? Er munur áþví hvort viðkomandi er hjólari eða ekki ?

Ø Ný hönnun framljósa bifhjóla sem aukið getur sýnileika í umferðinni

Þetta er aðeins hluti af þeim viðfangsefnum sem verða til kynningar og umræðu á fyrrnefndri ráðstefnu.

Útsendari Snigla, mun verða á staðnum, fylgjast með og bera félögum fréttir af ráðstefnunni. Einnig verður gestum boðið á forsýningu Intermot 2018, en það er alþjóðleg sýning bifhjólaframleiðenda og er nokkuðvíst að þar verður margt forvitnilegt að sjá og skoða. Stefnan er að birta fréttir og jafnvel myndir frá þeirri heimsókn á heimasíðu Snigla.

...

Nýlegar fréttir