Fjöldi bifhjólamanna sem látast í umferðarslysum við vegrið fer nú ört vaxandi í Svíþjóð með fjölgun vegriða þar í landi. Í Svíþjóð hafa vegamálayfirvöld gengið svo langt að setja vegrið þar sem hámarkshraði er yfir 80 km á klst. “Leyft er að hafa vegriðið 35 sentimetra frá brún vegarins þrátt fyrir að allar rannsóknir bendi í þá átt að betra sé að hafa öryggissvæði uppá að minnsta kosti tvo metra” segir Maria Nordqvist talsmaður SMC mótorhjólasamtakanna í Svíþjóð. “Því miður hafa vegamálayfirvöld sett vegrið við vegi þar sem þeirra er ekki þörf og hefur það leitt til mun alvarlegri slysa, sum á útlendingum á mótorhjólaferðalagi” sagði Maria ennfremur. Í Svíþjóð eru 4000 km af miðjuvegriðum við þjóðvegi og eru 75% þeirra víravegrið. Árið 2017 fórust 36 á bifhjólum í Svíþjóð, átta þeirra við vegrið, en það eru 22,2%. Árið 2016 var svipað, þá létust 37 á bifhjólum, þar af níu við vegrið eða 24,3%. Að sögn Maríu er þetta hæstu tölur í Evrópu, ef ekki í heiminum. “Að vísu hafa vegamálayfirvöld hægt á uppsetningu víravegriða í Svíþjóð, en er það aðallega vegna mikils kostnaðar við að viðhalda vírnum, auk umferðartafa sem að viðhald þeirra hefur í för með sér. Loks fórst starfsmaður vegagerðarinnar í fyrra þegar vír slitnaði þar sem hann var að tryggja slysavettvang.”
...